Viðskipti innlent

Þorkell og Sævar til SIV

Máni Snær Þorláksson skrifar
Þorkell Magnússon og Sævar Haraldsson hafa gengið til liðs við SIV eignastýringu.
Þorkell Magnússon og Sævar Haraldsson hafa gengið til liðs við SIV eignastýringu. SIV

SIV eignastýring hf. hefur ráðið til sín Þorkel Magnússon sem forstöðumanns sjóðastýringar og Sævar Haraldsson sem sjóðstjóra skuldabréfasjóða. Félagið bíður nú starfsleyfis sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða með viðbótarheimild til eignastýringar.

Í tilkynningu frá félaginu segir að stefnan er að hefja starfsemi félagsins um leið og starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands liggur fyrir. 

Bæði Þorkell, sem hefur þegar hafið störf hjá félaginu, og Sævar hafa töluverða reynslu úr fjármálageiranum að því fram kemur í tilkynningunni. 

Þorkell hefur starfað í geiranum undanfarin tuttugu og fimm ár. Áður var hann forstöðumaður Kviku eignastýringu hf. og þar á undan forstöðumaður skuldabréfa hjá Öldu sjóðum. Þá var hann forstöðumaður skuldabréfasviðs hjá Stefni hf. og staðgengill framkvæmdastjóra félagsins.

Hann er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu í iðnaðarverkfræði frá University of Minnesota. Einnig hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Sævar hefur undanfarin sex ár starfað hjá Stefni hf. sem sjóðstjóri skuldabréfasjóða en áður starfaði hann sem skuldabréfamiðlari hjá Fossum mörkuðum. Þá hefur Sævar starfað hjá Arion banka í skuldabréfa- og gjaldeyrismiðlun. Sævar er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og er með meistaragráðu í fjármálastærðfræði frá Boston University. Auk þess hefur hann lokið námi í verðbréfaviðskiptum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×