Innlent

Pantaði tví­vegis veitingar og neitaði að greiða fyrir þær

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti þó nokkrum ölvunartengdum verkefnum í gærkvöldi og nótt.
Lögregla sinnti þó nokkrum ölvunartengdum verkefnum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði tvívegis í gær afskipti af einstakling sem pantaði veitingar á veitingastöðum í póstnúmerinu 108 en neitaði svo að greiða fyrir þær.

Maðurinn virðist hafa verið í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Lögregla var einnig kölluð til vegna manns sem svaf áfengissvefni í verslun í miðbænum en hann var vakinn og fór svo sína leið. Þá var tilkynnt um mann sem hefði dottið í miðbænum og hlotið höfuðáverka og sá reyndist einnig ölvaður.

Hann var fluttur á Landspítala til aðhlynningar.

Lögregla sinnti einnig útkalli vegna einstaklings sem sýndi ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki hótels. Engar nánari upplýsingar er að finna um atvikið í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Þá var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi að reyna að opna bifreiðar í póstnúmerinu 104. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Ein tilkynning barst um þjófnað í verslun í Garðabæ og þá var tilkynnt að tveir einstaklingar hefðu verið staðnir að því að sprauta úr slökkvitæki í stigagangi í póstnúmerinu 111. Þeir reyndust undir lögaldri og var málið unnið með forráðamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×