Fótbolti

Köstuðu dauðum rottum í átt að stuðnings­mönnum mót­herjanna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þrátt fyrir atvikin á leiknum var mikil stemmning á meðal stuðningsmanna Standard Liege.
Þrátt fyrir atvikin á leiknum var mikil stemmning á meðal stuðningsmanna Standard Liege. Facebooksíða stuðningsmanna Standard Liege.

Stuðningsmenn belgíska knattspyrnuliðsins Charleroi gripu til frekar ógeðfellds ráðs þegar lið þeirra mætti Standard Liege í nágrannslag í belgísku úrvalsdeildinni um liðna helgi.

Það er mikill rígur á milli stuðningsmanna Standard Liege og Charleroi og það kom berlega í ljós þegar liðin mættust í belgísku deildinni á föstudagskvöldið. Leikur liðanna fór fram á Maurice Dufrasne-leikvanginum í Liege og sýndu stuðningsmenn Chareroi af sér ömurlega hegðun.

Þeir höfðu tekið með sér dauðar rottur á leikinn og köstuðu þeim síðan inn í hóp stuðningsmanna Standard. Stuðningsmannahópur Standard skrifar um atvikið á Facebook og fordæmir það harðlega.

Rotturnar höfðu verið málaðar í rauðum lit en það er sami litur og á treyjum Standard Liege.Stuðningsmannasíða Standard Liege á Facebook.

„Svokallaðir „stuðningsmenn“ Charleroi köstuðu dauðum rottum og við erum ekki að tala um eina eða tvær rottur heldur allavega tíu,“ er skrifað og mynd birt því til sönnunar.

„Þið eruð ógeðsleg. Það vissum við nú þegar og þetta staðfestir það,“ skrifuðu stuðningsmenn Standard ennfremur. Þeir vonast til að forsvarsmenn deildarinnar, félagið og dýraverndunarsamtök láti sig málið varða.

Stuðningsmenn Charleroi höfðu málað rotturnar rauðar en það er litur búninga Standard Liege. Í frétt RTBF er einnig greint frá því að stuðningsmennirnir hafi verið með borða sem stóð á „Barátta gegn rottum“ um leið og þeir sungu lag um rottur á meðal fólks í Liege.

Lið Standard vann 3-1 sigur í leiknum og er í 6. sæti belgísku deildarinnar en Charleroi er í 8. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×