Hersveitir Rússa í Úkraínu eru sagðar eiga við skort á skotfærum fyrir stórskotalið að etja, eins og Úkraínumenn, og myndi sala Kínverja á slíkum skotfærum til Rússa hafa mikil áhrif á stríðsrekstur þeirra.
Rússar hafa verið beittir refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum vegna innrásarinnar og sagði Qin að Kínverjar myndu einnig fylgjast með útflutningi vara sem hægt sé að nota í hernaði. Samkvæmt AP fréttaveitunni er Qin Gang hæst setti kínverski embættismaðurinn hingað til sem segir að Kínverjar muni ekki selja Rússum vopn.
Þetta sagði hann á blaðamannafundi með Annalenu Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands. Á sama fundi gagnrýndi Qin yfirvöld í Taívan harðlega og sakaði þau um að bera ábyrgð á aukinni spennu við Taívan-sund en Kínverjar, sem gera tilkall til Taívans, hafa haldið umfangsmiklar heræfingar þar á undanförnum dögum.
Sjá einnig: Kínverjar æfa hvernig þeir myndu umkringja Taívan
Vilja að Kínverjar þrýsti á Pútín
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í febrúar að Bandaríkjamenn hefðu upplýsingar um að yfirvöld í Kína væru að íhuga að selja Rússum vopn og skotfæri og varaði hann við því að slík sala yrði alvarlegt vandamál.
Evrópskir leiðtogar hafa tekið undir það og þeirra á meðal er Josep Borrell, sem stýrir utanríkismálum Evrópusambandsins. Hann sagði stuðning Kínverja við innrás Rússa fara gegn skuldbindingum Kína gagnvart Sameinuðu þjóðunum.

Baerbock sló á svipaða strengi í morgun og sagði að sem fastameðlimur í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna ættu Kínverjar að reyna að binda enda á stríðið. Hún sagðist velta vöngum yfir því af hverju ráðamenn í Kína hefðu ekki kallað eftir því að Rússar hættu stríðsrekstri sínum í Úkraínu.
„Við vitum öll að Pútín forseti [Vladimír Pútin, forseti Rússlands] gæti gert það hvenær sem er og að fólkið í Úkraínu vill ekkert meira en að lifa við frið á nýjan leik,“ sagði Baerbock.
Varnarmálaráðherra á leið til Rússlands
Xi Jinping, forseti Kína, ferðaðist í síðasta mánuði til Rússlands þar sem hann fundaði með Pútín. Leiðtogarnir funduðu lengi en ekki hefur komið fram hvort þeir ræddu um mögulega hernaðaraðstoð.
Sjá einnig: Rússar reyna að fá hernaðarstuðning frá Kína
Þá mun Li Shangfu, nýr varnarmálaráðherra Kína, ferðast til Rússlands, á næstu dögum þar sem hann mun verja fjórum dögum í fundi með Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands. Li var skipaður varnarmálaráðherra á sunnudaginn en hann hefur verið beittur refsiaðgerðum af Bandaríkjunum fyrir að kaupa vopna frá Rússlandi.
Samkvæmt RIA fréttaveitunni munu ráðherrarnir meðal annars heimsækja rússneska herskóla og ræða við leiðtoga rússneska hersins. Þá hefur fréttaveitan eftir talsmanni varnarmálaráðuneytis Kína að heimsóknin muni bæta samstarf ríkjanna.