Innlent

Til­kynnt um skart­gripa­þjófnað á hótel­her­bergi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglu barst tilkynning í gær frá erlendum ferðamanni, sem varð fyrir þjófnaði á hótelherbergi sínu. Voru atvik þannig að á meðan viðkomandi var í skipulagðri dagsferð með herbergisfélögum sínum hurfu skartgripir sem voru á herberginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu um verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Lögreglu barst einnig tilkynning frá eiganda bifreiðar eftir árekstur, þar sem tjónvaldur stakk af. Lögregla mætti á vettvang og tók meðal annars ljósmyndir en þá kom í ljós að skráningarnúmer þess sem stakk af hafði losnað og lá eftir. Málið er í rannsókn.

Hundur í óskilum og hávaði frá körfuboltavelli komu einnig inn á borð lögreglu. Þá var tilkynnt um einstakling sem var að valda tjóni á hurð í séreign fjölbýlishúss og ölvaðan einstakling sem hafði brotið borð í samkomusal fyrirtækis.

Sá vildi ekki kannast við eignaspjöllin þegar málið var borið undir hann en honum var vísað á brott.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um ýmis umferðarlagabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×