Innlent

Þrjár líkams­á­rásir á borði lög­reglu eftir gær­kvöldið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan hafði nóg á sinni könnu í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði nóg á sinni könnu í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í þrjú útköll vegna líkamsárása í gærkvöldi. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Fyrsta útkallið barst skömmu fyrir klukkan sjö í gærkvöldi, vegna árásar í miðborg Reykjavíkur. Sá sem fyrir árásinni varð taldi sig nefbrotinn eftir árásina, en engar frekari upplýsingar um árásina koma fram í færslu lögreglu.

Annað útkall barst þá í Árbæ laust fyrir klukkan níu, þá vegna líkamsárásar og hótana. Að öðru leyti er framvinda málsins ekki tíunduð í skeyti lögreglu til fjölmiðla.

Þriðja árásin var tilkynnt upp úr klukkan ellefu. Líkt og sú fyrsta er hún sögð hafa átt sér stað í miðbænum. 

Nóg af verkefnum

Fjórir ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. Þá var einn til viðbótar sektaður fyrir akstur án ökuréttinda.

Klukkan hálf sjö í gærkvöldi barst lögreglu ósk um aðstoð vegna dauðrar rottu í garði í Laugardal. Þeim sem bar óskina upp var leiðbeint um viðeigandi ráðstöfun rottunnar. 

Skömmu fyrir klukkan ellefu óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu í Breiðholti, vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir farið. Viðkomandi verður kærður fyrir fjársvik. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×