Þann 6. janúar síðastliðinn var Zwerner skotin af barninu í miðri kennslustund í Richneck grunnskólanum í Newport í Virginíufylki og særðist á hönd og brjósti. Hún lá á spítala í tvær vikur og þurfti að undirgangast fjórar aðgerðir.
Sex ára drengur hafði haft níu millímetra skammbyssu með sér í bakpoka í skólann og dró vopnið upp eftir það sem lögregla hefur lýst sem „deilum“ hans og kennarans. Saksóknari í Virginíu hefur sagt ósennilegt að drengurinn verði ákærður vegna málsins.
AP greinir frá því að Zwerner hafi stefnt George Parker III, fyrrverandi formanni skólaráðs Newport, Briönu Foster-Newton, fyrrverandi skólastjóra og Ebony Parker, fyrrverandi aðstoðarskólastjóra, til greiðslu skaðabóta upp á fjörutíu milljónir dala. Parker III var rekinn af skólaráðinu og Parker sagði starfi sínu lausu eftir atvikið. Foster-Newton vinnur enn hjá skólayfirvöldum á svæðinu að sögn talsmanns þeirra en hann gefur ekki upp hvaða stöðu hún gegnir.
AP hefur eftir lögmanni skólastjórans fyrrverandi að hann hafi ekki haft vitneskju um ábendingar um að drengurinn hafi verið með skotvopn í skólanum.
„Frú Briana Foster-Newton mun verjast öllum ásökunum sem bornar verða á hana sem hluti af lögsókn ungfrúar Zwerner og bregðast við í takti við það,“ er haft eftir lögmanninum.
Í frétt AP segir að hinir tveir stefndu hafi ekki brugðist við fyrirspurnum fréttastofunnar.