„Það er búið að vera svolítil bið eftir þessum leik sem var kannski bara fínt fyrir okkur þar sem við vorum inni í alvöru törn í febrúar. Við erum bara brattir og það er fínt stand á liðinu og mjög erfitt að vera ekki spenntir fyrir þessu eftir undanfarna leiki í þessari keppni hérna heima,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals á blaðamannafundi Vals í Origo-höllinni í gær.
Snorri segir að töluverður munur sé á þyngd leikmanna Vals og Göppinghen.
„Við þurfum að fara í það sem við erum góðir í og keyra upp hraðann. Þeir geta svo sem gert það líka en eru ekki eins mikið fyrir það og við. Þeir eru gríðarlega sterkur varnarlega, mjög þéttir og hafa fengið á sig fæst mörg fyrir utan Füchse Berlin í allri keppninni og eru bara með alvöru varnarlið og góða breidd. Það er ótrúlega mikið sem við þurfum að varast, það eru þyngsli í liðinu og kraftur og þeir hafa það klárlega fram yfir okkur. Við þurfum að nýta okkur hraðann og það sem við gerum best. Ef við náum því ekki fram þá hef ég smá áhyggjur.“