Sextán liða úrslit Evrópudeildarinnar hefjast annað kvöld og þangað eru Íslandsmeistarar Vals mættir eftir frábæran árangur í riðlakeppninni. Liðið mætir Göppingen á Hlíðarenda annað kvöld í fyrri leik liðanna og þó þýska liðið sé í lægð heima fyrir er ljóst að um hörkulið er að ræða.

„Ég held það sé mikilvægt og gott fyrir okkur að byrja á heimaleik. Mögulega getum við komið þeim eitthvað á óvart og reynt að sprengja upp þessa rimmu því þetta er auðvitað mjög sterkur andstæðingur. Fyrri leikurinn er gríðarlega mikilvægur og það væri vel þegið ef fólk myndi fjölmenna í höllina,“ bætti Alexander Örn við en stemningin á heimaleikjum Vals í keppninni hefur verið hreint út sagt rafmögnuð.
„Þetta lyftir spennustigin upp á næsta stig, held ég sé öruggt að fullyrða. Leikmenn nærast svo auðvitað á fólksfjöldanum og látunum.“
„Þetta er gríðarlega sterkur andstæðingur og erfitt að koma á óvart á þessu stigi keppninnar en ef við höldum fast í okkar gildi, reynum að vera aggressífir og keyra upp hraðann þá mögulega getum við komið þeim á óvart. Með góðri frammistöðu er allt mögulegt,“ sagði Alexander Örn að endingu.
Leikur Vals og Göppingen hefst klukkan 19.45 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 19.15.