Innlent

Leggja til að borgin reisi upp­hituð strætó­skýli

Árni Sæberg skrifar
Sjálfstæðismenn í Reykjavík vilja að strætófarþegar geti beðið inni í hlýjunni eftir strætó.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík vilja að strætófarþegar geti beðið inni í hlýjunni eftir strætó. Vísir/Vilhelm

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu leggja fram tillögu þess efnis að ráðist verði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík, á næsta fundi borgarstjórnar.

„Borgarstjórn samþykkir að ráðist verði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík. Slíkum skýlum verði komið fyrir á fjölförnum biðstöðvum í öllum hverfum borgarinnar í því skyni að bæta aðstæður farþega og fjölga viðskiptavinum Strætó.“

Svo hljóðar tillagan sem lögð verður fram á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn næstkomandi.

Þetta kemur fram í færslu Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í Facebook-hópi Félags strætófarþega.

Þar segir hann að mikil framþróun hafi orðið í gerð biðskýla á undanförnum árum. Margar erlendar borgir leggi sig fram um að reisa lokuð biðskýli, sem verja farþega fyrir veðri og vindum og eru jafnvel upphituð. 

„Tímabært er að Reykjavík taki þátt í þessari þróun. Ákjósanlegt væri að reisa slík skýli við fjölmenna vinnustaði og skóla,“ segir Kjartan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×