Innlent

Staðnir að verki grunaðir um inn­brotin

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mennirnir voru handteknir á vettvangi.
Mennirnir voru handteknir á vettvangi. Getty Images

Þrír voru handteknir í Gerðunum í dag grunaðir um innbrot í geymslur á svæðinu. Einstaklingarnir voru vistaðir í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins. Meintu þýfi hefur verið skilað til eigenda.

Málið er í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjallað er um verkefni dagsins í dag.

Lögreglu barst tilkynning um mann sem svaf í ruslageymslu í Túnunum fyrr í dag. Hann reyndist vera vopnaður hnífi sem gerður var upptækur. Maðurinn verður kærður fyrir brot á vopnalögum.

Þá hafði lögreglan afskipti af manni á ónefndri stofnun í Austurbæ. Sá hafði stolið hreinsunarspritti og drukkið, eins segir í dagbók lögreglu. Hann fór vandræðalaust af vettvangi.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu í Breiðholtslaug vegna manns sem ætlaði í sund án þess að borga. Maðurinn hafði ekki sundföt meðferðis og lögregla vísaði honum frá vegna háttseminnar.

Þrívegis var tilkynnt um sinubruna; í Garðabæ, við Flataskóla og í efra Breiðholti. Vel gekk að slökkva eldinn og slökkvilið hefur tryggt aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×