Erlent

Ís­land efst á meðal þjóða sem geta tekist á við of­fitu­vandann

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Samtökin spá því að að um helmingur mannkyns muni glíma við offitu árið 2035.
Samtökin spá því að að um helmingur mannkyns muni glíma við offitu árið 2035. Getty

Ísland er í fjórða efsta sæti á lista yfir lönd sem eru best sett til að takast á við offituvandann.

Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Heimssamtaka um málefni offitu (World obesity Federation) en samtökin spá því að að um helmingur mannkyns muni glíma við offitu árið 2035.

Sviss trónir á toppnum á umræddum lista og Noregur og Finnland fylgja á eftir. Svíþjóð er í fimmta sæti og þar á eftir fylgja Frakkland, Bretland, Portúgal og Írland.

Röðunarkerfið tekur mið af núverandi viðbrögðum heilbrigðiskerfisins í hverju landi og skuldbindingu landanna við innleiðingu stefnu þegar kemur að forvörnum gegn offitu.

Neðst á listanum eru Papúa- Nýja Gínea, Sómalía, Nígería og Mið- Afríkulýðveldið. 

Búast má við að hlutfall fólks í ofþyngd muni vaxa hraðast í vanþróuðum löndum, þar sem skortur er á úrræðum og viðbúnaði.

Fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar að aukningu á offitu á heimsvísu megi rekja til þátta á borð við neyðarástand í loftslagsmálum, Covid-takmarkanir, efnamengun og einnig samsetningu og kynningu á óhollum matvælum og hegðun matvælaiðnaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×