Innlent

Lögreglu tilkynnt um dansandi konu í garði

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
lögga
Vísir/Vilhelm

Nokkuð óvenjuleg tilkynning barst til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag. Tilkynnt var um konu sem sögð var dansa og tala út í loftið í garði.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en tilkynningin um konuna dansandi barst til lögreglustöðvar 1, sem sinnir útköllum í Austurbæ, Vesturbæ og Miðborg og á Seltjarnarnesi.

Fram kemur að stuttu seinna hafi verið tilkynnt um að umrædd konan væri farin af vettvangi. Ekki var talin þörf á því að hafa frekari eftirlit með morgunleikfimi konunnar.

Þá var tilkynnt um sofandi mann á hóteli í hverfi 105. Lögregla fór á vettvang og vísaði manninum á brott. Maðurinn gekk sína leið.

Á öðrum stað í hverfi 105 var tilkynnt um mann liggjandi á gangstétt. Lögregla fór á vettvang ásamt sjúkraliði en maðurinn var fluttur af vettvangi í sjúkrabíl.

Þá var tilkynnt um líkamsárás þar sem aðili kastaði bolla í árásarþola. Gerandi var handtekinn vegna gruns um líkamsárás og var hann vistaður í fangaklefa þangað til að tekin verður af honum skýrslu vegna málsins.

Þá var maður handtekinn vegna gruns um ólöglega dvöl í landinu. Verður hann vistaður í klefa þar til tekin verður af honum skýrsla og lögregla gerir ráðstafanir vegna ólöglegrar dvalar hans í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×