Ekki er hægt að kalla eldflaugaárásir Rússa á að minnsta kosti ellefu borgir og bæi í Úkraínu í gærkvöldi og nótt annað en hryðjuverk. Eldflaugunum er beint að raforkuinnviðum og öðrum innviðum sem og íbúabyggð.

Úkraínumenn náðu að skjóta niður 34 af 81 eldflaug sem Rússar skutu og höfnuðu meðal annars borginni Lviv í vestri, höfuðborginni Kænugarði, Kharkiv og Zaporizhhia þannig að rafmagn fór af kjarnorkuverinu þar í sjötta sinn vegna eldflauga- og stórskotaliðsárása. Verið gekk því í nokkrar klukkustundir á díselvélum sem duga í um tíu klukkutíma.

Rafael Grossi forstjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar var nóg boðið eftir þessi tíðindi dagsins. En í fyrra fór hann persónulega með eftirlitssveit sína í kjarnorkuverið.

„Rétt einu sinni enn er Zaporizhzhia-kjarnorkuverið keyrt á dísilvélum í neyðarskyni. Það er síðasta varnarlínan.,“ sagði Grossi á fundi með fréttamönnum. Þessi staða gengi ekki lengur.
„Ég er furðu lostinn yfir þessu andvaraleysi. Já, andvaraleysi. Hvað erum við að gera til að hindra að þetta gerist? Í hvert sinn tökum við áhættu og ef við látum þetta viðgangast hvað eftir annað mun lukkan snúa við okkur bakinu einn daginn,“ sagði Grossi.

Talið er að Rússar hafi misst á bilinu 20 til 30 þúsund hermenn í linnulausum tilraunum sínum til að ná Bakhmut í austurhluta landsins á sitt vald undanfarna mánuði. Árásirnar bitna líka á nágrannabæjum eins og Kostyantynivka, þar sem um 70 þúsund manns búa líkt og bjuggu í Bakhmut. Þar rignir einnig stórskotum og eldflaugum eins og ráðþrota Olha Babashkina greinir frá.

„Þeir eru að eyðileggja borgina okkar. Stórskotahríðin dynur á okkur á hverjum degi. Á hverjum degi, kvölds og morgna. Hér sjáið þið afleiðingar stórskotahríðarinnar. Allir eru í áfalli. Allir eru hræddir. Engin orð fá þessu lýst. Ég geng til svefns á kvöldin og veit ekki hvort ég vakna daginn eftir,“ segir hin rúmlega sextuga Babashkina innan um húsarústir.