Haukar byrjuðu leikinn betur og komust í 10 stiga forystu en eftir það var leikurinn kaflaskiptur og Njarðvíkingar skrefi á undan Haukum. Til að mynda var þriðji leikhluti frábær hjá Njarðvík, þar náðu þeir góðri forystu og skoruðu um 30 stig.
Fjórði leikhluti Njarðvíkur var ekki jafn góður, þá hleyptu þeir Haukum hættulega nálægt sér. Haukur Helgi vill að sitt lið spili vel allt til loka leiks.
„Já það voru síðustu sex mínúturnar sem við byrjuðum að gera bara eitthvað. Við þurfum að vera andlega sterkari og klára leiki.“
Haukur hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin ár en er kominn á fullt.
„Já ég hef saknað þess síðustu tvö ár. Þetta er búið að vera erfitt og núna eftir HM þurfti maður aðeins að líta inn á við og gíra sig í gang.“
Njarðvík er með reynslumikið lið og hefur spilað vel upp á síðkastið og unnið síðustu 8 leiki.
„Algjörlega en öll þessi reynsla fer í vaskinn ef við erum ekki einbeittir og klárum leikina ekki almennilega. Nei, nei ég er sáttur með hvernig þetta var heilt yfir. Þetta var kaflaskipt og körfuboltinn er þannig en ég er mjög sáttur með hvernig við spiluðum.“
Haukur var ánægður með varnarleikinn í síðustu þremur leikhlutunum. „Ekki fyrsti leikhluti. Hann var eiginlega alveg hræðilegur,“ sagði Haukur Helgi að endingu.