Þetta segir Haraldur Ingi í færslu á Twitter, sem hann stílar á sjálfan Elon Musk, sem hefur verið gríðarlega virkur á eigin miðli undanfarna daga.
„Fyrir níu dögum var lokað fyrir aðgang að vinnutölvunni minni, á sama tíma og um tvö hundrum starfsmenn Twitter lentu í því sama. Hins vegar hefur mannauðsstjórinn ekki getað staðfest hvort ég sé enn starfsmaður fyrirtækisins eða ekki. Þú hefur ekki svarað tölvupóstum frá mér,“ segir Haraldur Ingi.
Dear @elonmusk
— Halli (@iamharaldur) March 6, 2023
9 days ago the access to my work computer was cut, along with about 200 other Twitter employees.
However your head of HR is not able to confirm if I am an employee or not. You've not answered my emails.
Maybe if enough people retweet you'll answer me here?
Á dögunum var greint frá því að svo virtist sem Haraldi hefði verið sagt upp störfum hjá Twitter ásamt miklum fjölda annarra starfsmanna fyrirtækisins.
„Tvö ár. Ég lærði sitthvað, eignaðist nýja vini og gerði margt gott; hló mikið og grét smá. Ég sé ekki eftir neinu,“ sagði Haraldur þá í tísti.
Hann hefur starfað hjá samfélagsmiðlinum síðastliðin tvö ár eftir að hann seldi fyrirtækinu hönnunarfyrirtækið Ueno, sem hann stofnaði.
Haraldur seldi Ueno til Twitter árið 2021 og samdi við félagið um að stærstur hluti kaupverðsins yrði greiddur með launagreiðslum svo hann gæti greitt skatta af sölunni á Íslandi. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en talið er að það hafi hlaupið á milljörðum króna.
Hvorki hefur náðst í Harald við vinnslu þessarar fréttar né fyrri frétta af mögulegum starfslokum hans.