Innlent

Á­rásin við Glæsi­bæ var hnífs­stungu­á­rás

Árni Sæberg skrifar
Sérsveit Ríkislögreglustjóra hefur leitað árásarmannsins í Laugardal í dag.
Sérsveit Ríkislögreglustjóra hefur leitað árásarmannsins í Laugardal í dag. Vísir/Vilhelm

Líkamsárás sem framin var við Glæsibæ fyrr í dag var hnífsstunguárás. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur leitað gerandans í Laugardalnum í dag ásamt sérsveit Ríkislögreglustjóra.

Þetta kemur fram í dagbókarfærslu lögreglu fyrir daginn. Þar segir jafnframt að meiðsli mannsins sem varð fyrir árásinni hafi verið minniháttar.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að lögregla hefði upplýsingar um hvaða mann væri að ræða sem leitað er að.

Hann var enn ófundinn um klukkan 17 í dag en ekki hefur náðst í Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til þess að fá staðfest hvort hans sé enn leitað.

Aðstoðuðu mann sem fór í sjóinn

Af öðrum aðgerðum lögreglu í dag ber hæst að hún aðstoðaði mann sem farið hafði í sjóinn við Ægisgarð í Reykjavík.

Þá var maður handtekinn í miðbænum fyrir þjófnað og brotist var inn í hverfi 110 og minniháttar skemmdarverk unnin.

Loks segir í dagbókarfærslunni að töluvert hafi verið að gera hjá lögreglu vegna umferðarlagabrota sem tengjast ölvun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×