Fótbolti

Stuðningsmennirnir brenndu treyju Balotelli í stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli er að upplifa mjög erfiðar vikur með FC Sion.
Mario Balotelli er að upplifa mjög erfiðar vikur með FC Sion. Getty/DeFodi Images

Mario Balotelli spurði um árið: Af hverju alltaf ég? Enn á ný virðist þetta eiga við.

Ítalski knattspyrnumaðurinn hefur flakkað á milli félaga undanfarin ár og stoppar oft stutt við á hverjum stað.

Við þekkjum hann frá því að hann spilaði með Manchester City, Internazionale og seinna með Liverpool. Undanfarin ár hefur þessi fyrrum lofaði framherji hins vegar fjarlægst bestu deildir í Evrópu.

Nú er hann leikmaður Sion í Sviss. Það byrjaði ágætlega og Mario Balotelli skoraði meðal annars í fjórum leikjum í röð í október.

Nú er hins vegar svo komið að Balotelli hefur ekki skorað fyrir Sion síðan um miðjan nóvember.

Hann bar fyrirliðabandið um helgina en ekki breytti það miklu. Það sem meira er að liðið steinlá 4-0 á móti St. Gallen á heimavelli.

Sion hefur ekki unnið leik síðan í október og tapið um helgina var það fimmta í síðustu sjö leikjum.

Stuðningsmennirnir hafa ákveðið að gera Balotelli að blóraböggli. Áróðursborðum í stúkunni var beint gegn honum og á einum stóð: Annað hvort legðu þig fram í treyjunni eða drullaðu þér í burtu.

Eftir að liðið fékk á sig hvert markið á fætur öðru í leiknum þá ákváðu stuðningsmennirnir að gang svo langt að brenna treyju Balotelli í stúkunni. Þau gætu því ekki verið skýrari skilaboðin frá þeim.

Sion liðið er í bullandi fallhættu með jafnmörg stig og botnliðið en með betri markatölu. Fyrir tíu umferðum var liðið í þriðja sætinu en síðan hefur verið algjört hrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×