Erlent

Í mál við Lady Gaga eftir að hafa skilað hundunum hennar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Konan krefst þess að Lady Gaga greiði sér 1,5 milljón dollara.
Konan krefst þess að Lady Gaga greiði sér 1,5 milljón dollara. Getty/Axelle

Kona sem skilaði hundum söng- og leikkonunnar Lady Gaga eftir að þeim var stolið hefur farið í mál við hana. Gaga lofaði að „spyrja engra spurninga“ yrði hundunum skilað en síðan kom í ljós að konan tengdist þjófnaðnum og var dæmd fyrir aðild sína. 

Í febrúar árið 2021 réðust tveir menn að aðstoðarmanni Lady Gaga er hann var úti að ganga með hunda hennar. Þeir skutu hann einu sinni í bringuna, tóku hundana og flúðu af vettvangi. Aðstoðarmaðurinn lifði árásina af. 

Gaga lofaði hverjum þeim sem skilaði hundunum að þeir myndu fá 500 þúsund dollara, tæpar 72 milljónir króna, og að hún myndi ekki spyrja neinna spurninga um hvernig manneskjan sem skilaði þeim hefði fengið þá. 

Tveimur dögum eftir ránið skilaði Jennifer McBride hundunum. Stuttu síðar var hún ákærð fyrir að hafa fengið ránsfeng og fyrir aðild að tilraun til manndráps. Hún var að lokum dæmt í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi. Þá hefur einn karlmaður, James Howard Jackson, verið dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir að skjóta aðstoðarmanninn. 

McBride hafði þekkt árásarmennina þrjá til margra ára. Hún vissi þegar hún tók við hundunum að þeir væru ránsfengur og því var hún dæmd. 

The Guardian greinir frá því að nú fyrir helgi hafi McBride höfðað mál gegn söngkonunni fyrir að hafa ekki greitt sér peninginn. Þá hafi söngkonan ekki virt það að hafa sagst ekki ætla að spyrja neinna spurninga.

McBride krefst þess að Gaga greiði sér 1,5 milljón dollara, 216 milljónir króna. Hún segir söngkonuna hafi valdið sér andlegri angist, sársauka og þjáningu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×