Erlent

Svía­­konungur gengst undir hjarta­að­­gerð

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Gústaf Svíakonungur er 76 ára gamall.
Karl Gústaf Svíakonungur er 76 ára gamall. Getty

Karl Gústaf Svíakonungur mun gangast undir hjartaaðgerð í dag.

Sænska konungshöllin hefur ekki gefið upp nákvæmlega hvers kyns aðgerð um ræðir en Viveka Frykman Kull, læknir konungsins, segir þó að hún hafi lagt til að hann gengist undir umrædda aðgerð og að konungurinn hafi veitt samþykki sitt.

Fram kemur í frétt Dagens Nyheter að læknirinn segir að konungurinn verði frá vinnu í einhverjar vikur að aðgerðinni lokinni. Er þannig búið að fresta opinberum erindagjörðum konungsins sem skipulögð voru 20. febrúar til 3. mars þar til síðar á árinu.

Frykman Kull segir að hinn 76 ára konungur hafi verið á biðlista eftir aðgerð líkt og allir aðrir.

„Það er enginn forgangur, sama þó maður sé konungur. Það er læknisfræðileg þörf sem ræður því hvað maður þarf að bíða lengi,“ segir læknir konungsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×