Sport

Kasólétt Tia-Clair Toomey reyndi við 23.1

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tia-Clair Toomey hefur verið yfirburðarkona í CrossFit í sex ár og hún er enn öflug þrátt fyrir að vera komin langt á leið með sitt fyrsta barn.
Tia-Clair Toomey hefur verið yfirburðarkona í CrossFit í sex ár og hún er enn öflug þrátt fyrir að vera komin langt á leið með sitt fyrsta barn. Instagram/@tiaclair1

Opni hluti undankeppni heimsleikanna í CrossFit er í gangi en á fimmtudagskvöldið fengu allir að vita hvernig 23.1 æfingin lítur út.

Hin ástralska Tia-Clair Toomey hefur unnið sex heimsmeistaratitla í röð í CrossFit en verður ekki með í ár af því að hún er ólétt af sínu fyrsta barni.

Það stoppaði þó ekki þessa miklu íþróttakonu að reyna sig við fyrstu æfingu á The Open í ár.

Í æfingunni á íþróttafólkið að gera eins margar endurtekningar og þau geta á fjórtán mínútum með því að eyða sextíu kalóríum í róðrarvélinni, gera fimmtíu endurtekningar af tám upp í stöng, henda 6,3 kílóa boltum fjörutíu sinnum í vegg, gera þrjátíu frívendingar með 43 kílóa stöng og enda á tuttugu upplyftingum í hringjum.

Toomey náði 180 endurtekningum í ár en sagðist hafa náð 187 endurtekningum þegar þessi sama æfinga var í opna hlutanum árið 2014.

Toomey viðurkenndi þó að hafa sleppt upplyftingum í hringjum (Ring Muscle Ups) og skiljanlega enda er það erfiður endakafli og stórhættulegt fyrir ófríska konu ef hún skildi missa takið.

Tia-Clair sagði líka hafa átt í smá erfiðleikum með því að sparka tánum upp í stöngina enda ekki auðveldasta hreyfingin fyrir kasólétta konu.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af Tiu-Clair Toomey að gera æfingarnar sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×