Handbolti

Oddur og félagar misstigu sig á toppnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Oddur Gretarsson var markahæsti maður Balingen í kvöld.
Oddur Gretarsson var markahæsti maður Balingen í kvöld. Tom Weller/Getty Images

Oddur Grétarsson og félagar hans í HBW Balingen-Weilstetten þurftu að sætta sig við jafntefli er liðið heimsótti VfL Lübeck-Schwartau í þýsku B-deildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 23-23, en Oddur og félagar eru enn í bílstjórasætinu á toppi deildarinnar.

Gestirnir í Balingen höfðu yfirhöndina stærstan hluta fyrri hálfleiks þar sem liðið náði mest riggja marka forskoti. Illa gekk þó að hrista heimamenn af sér og staðan var 11-13 þegar flautað var til hálfleiks.

Eftir góða byrjun gestanna í síðari hálfleik náðu heimamenn sterku áhlaupi þar sem liðið skoraði fjögur mörk í röð og jafnaði leikinn í stöðunni 16-16. Heimamenn náðu svo upp þriggja marka forskoti þegar lítið var eftir af leiknum, en Oddur og félagar náðu að klóra sig aftur inn í leikinn og niðurstaðan varð jafntefli, 23-23.

Oddur var markahæsti maður Balingen í kvöld með fjögur mörk úr fimm skotum, en liðið trónir enn á toppi þýsku B-deildarinnar með 34 stig eftir 21 leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×