Skoðun

Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Miðað við niðurstöður skoðanakannana hefur stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið farið dvínandi hér á landi eftir að hafa aukizt talsvert í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu í lok febrúar á síðasta ári. Hafa fjölmiðlar eins og Ríkisútvarpið og Heimildin vakið máls á þessu í umfjöllunum sínum um málið. Áður höfðu allar kannanir í þrettán ár samfellt sýnt fleiri andvíga því að Ísland gengi í sambandið.

Vart þarf að koma á óvart að stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið hafi aukizt fyrstu mánuðina eftir innrásina í Úkraínu ofan í stöðu efnahagsmála. Hins vegar hefur hið hörmulega stríð í Úkraínu meðal annars varpað enn betra ljósi en áður á það hve illa sambandið stendur að vígi í öryggis- og varnarmálum, ekki sízt þegar kemur að efnahagsöryggi, fyrir utan annað sem innganga í það hefði í för með sér.

Miðað við niðurstöður nýjustu skoðanakönnunarinnar, sem gerð var nýverið af Maskínu fyrir Evrópuhreyfinguna sem hlynnt er inngöngu Íslands í Evrópusambandið, skilja nú einungis tæp fimm prósentustig þá að sem vilja ganga í sambandið og þá sem eru því andvígir en fyrir að verða ári síðan var munurinn um 14% inngöngusinnum í vil. Þannig voru 40,8% hlynnt inngöngu samkvæmt könnuninni en 35,9% andvíg.

Fyrir tæpu ári síðan voru 47% hlynnt inngöngu í Evrópusambandið og 33% andvíg samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Gallups sem gerð var einungis nokkrum dögum eftir innrás rússneska hersins í Úkraínu. Síðasta sumar mældist stuðningurinn við inngöngu 48,5% í könnun Prósents, í nóvember 42,8% samkvæmt sama fyrirtæki og nú síðast sem fyrr segir 40,8% samkvæmt könnun Maskínu.

Fylgi Viðreisnar, eina flokksins sem leggur áherzlu á inngöngu í Evrópusambandið, mælist einungis um 7% samkvæmt niðurstöðum nýjustu könnunar á fylgi flokkanna. Fylgi Samfylkingarinnar, hins flokksins sem talað hefur fyrir málinu í gegnum tíðina en setti það á ís síðasta haust, hefur í kjölfar þeirrar ákvörðunar tvöfaldast. Kannanir benda til þess að sú ákvörðun hafi vegið þungt í þeim efnum.

Margt bendir þannig til þess að áherzla á inngöngu Íslands í Evrópusambandið sé ekki ávísun á fylgisaukningu flokka. Ekki einu sinni þegar reynt er að telja fólki trú um það að sambandið sé einungis gjaldmiðill. Þvert á móti. Ólíkt Samfylkingunni býr Viðreisn við þann vanda að hafa beinlínis verið stofnuð í kringum þetta eina tiltekna stefnumál. Án þess væri forsendan fyrir tilvist flokksins úr sögunni.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×