Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir frá löndun í Ísafjarðarhöfn í dag á nýslátruðum laxi úr fiskeldiskvíum Arctic Fish í Dýrafirði. Norska skipið Norwegian Gannet er frá því í lok janúar búið að fara átta ferðir milli Dýrafjarðar og Skutulsfjarðar.

Fréttaritari Stöðvar 2, Hafþór Gunnarsson, sem tók myndirnar, spurði fulltrúa Arctic, Daníel Jakobsson, hversvegna þessi aðferð væri notuð.
„Það er nú einfaldlega bara þannig að umsvifin í laxeldinu á Vestfjörðum eru orðin það mikil,“ svarar Daníel og segir að í sláturhúsinu á Bíldudal sé slátrað um 140 tonnum á dag nánast alla daga vikunnar. Það anni ekki eftirspurn. Þetta sé millibilsástand þangað til nýtt sláturhús Arctic Fish verði tekið í notkun í Bolungarvík í júní.

Á bryggjunni er búið að tjalda yfir flokkunarvélar sem flokka laxinn áður en hann fer um borð í flutningabíla en þessu mánaðarlanga verkefni fylgja mikil umsvif.
„Hér er fullt af fólki sem hefur vinnu við þetta. Við erum með um það bil fimmtán til tuttugu flutningabíla í vinnu. Við erum með um fimmtán manns í vinnu bara við löndunina.
Við erum auðvitað með um þrjátíu manns í vinnu í Dýrafirði.
Og hafnargjöldin, bara af þessu, eru um þrjátíu milljónir, sem fara náttúrlega beint til bæjarins. Þannig að bæjarstýran okkar hlýtur að vera ánægð með það,“ segir Daníel.

Þetta eru um 3.500 tonn af laxi sem verið er að slátra en hann er sendur áfram til Grindavíkur og Djúpavogs til pökkunar og til frystingar í Bolungarvík en einnig víðar um land til frekari vinnslu.
Og þetta er mikil verðmæti sem hér fara í gegn.
„Þetta eru svona þrír og hálfur til fjórir milljarðar sem við erum að velta núna í febrúar,“ segir Daníel og býst við því að verkefni skipsins ljúki um næstu helgi.

-En verða vandræði með að fá bíla núna þegar verkfall er skollið á?
„Við höldum ekki. Við vonum ekki. En við tökum einn dag í einu, eins og aðrir landsmenn, og vonum það besta,“ svarar Daníel Jakobsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: