Umræða um leikskóla í samfélaginu er í stuttu máli þessi:
- Það vantar rými fyrir börn, helst eins ung og hægt er
- Það vantar leikskólakennara og starfsfólk
- Það er mygla í skólum
Þessi frasi „settu súrefnisgrímuna fyrst á yður“ er svo sannarlega viðeigandi þegar við horfum á leikskólakennara molna niður í starfinu sökum álags, undirmönnunar og ýmis konar vanda.
Staðreyndin er sú að fjöldi leikskólakennara vinnur bara í eina viku í viðbót, eða nokkra mánuði, jafnvel ári lengur, áður en þau hlusta á hvað heilsan þeirra leyfir. Bara til að klára svo mikilvæg mál í leikskólanum fyrst. Það endar oftast á einn veg, örmögnun og möguleiki að viðkomandi snúi ekki til baka í kennslu sökum alvarlegs heilsubrests.
„Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna,
drukkna í öllu þessu í kringum mig.“
Ég er leikskólakennari og brenn fyrir starfið mitt, svo mikið að heilsan varð að láta í minni pokann og örmagna kulnun varð staðreynd fyrir ári síðan.
Á þessu ári sem ég hef verið í veikindaleyfi, hef ég lært mikið, hef notið þjónustu VIRK starfsendurhæfingar. Þetta er eitt mikilvægasta sjálfsnám sem ég hef nokkurn tímann veitt mér. Samferðafólk mitt á námskeiðum er fjöldinn allur af leikskólakennurum. Þessi endurhæfingarnámskeið snúast um að byggja okkur upp til að ná andlegri og líkamlegri heilsu og komast út á vinnumarkaðinn á ný.
„Hjálpaðu mér upp, ég get það ekki sjálfur,
ég er orðinn leiður á að liggja hér.“
Ég kalla eftir því að fá markvissar forvarnir fyrir líkama og sál kennara inn í leikskólana, stýrt og stjórnað frá fagfólki, greitt yrði fyrir þá þjónustu af rekstraraðilum viðkomandi skóla. Þjónustan sem ég nýt hjá VIRK á heima hjá öllum þeim sem starfa í leikskólum. Ýmiskonar öpp, heimasíður og fleira eru góð bjargráð, en tíminn til að framfylgja því er ekki til. Þar af leiðandi þarf þessari björgunaraðgerð að vera stýrt utan frá, bæði faglega og markvisst.
Er ekki komin tími til að við gefum heilsu okkar sem höldum leikskólum landsins gangandi, rými og tíma til að ná andanum og þar af leiðandi er möguleiki á að fækka veikindaleyfum. Við þurfum að átta okkur á því að það er dýrt fyrir allt samfélagið að missa svo mikilvæga hlekki sem leikskólakennarar eru úr starfi og niðurstaðan til viðbótar við heilsubrest kennara er að menntun barna á fyrsta skólastiginu verður mun lakari þegar fagfólk hverfur tímabundið eða alfarið úr starfi. Áhrif stöðugra mannabreytinga á yngsta skólastiginu eru þekkt, þau hafa neikvæð áhrif á geðtengsl barna.
Mér þætti vænt um að öll sveitafélög landsins grípi boltann og hefji þá mögnuðu vinnu sem nú er hafin sbr. í Hafnarfirði og nú Akureyri, að koma til móts við vanda leikskólanna. Vissulega geta rekstraraðilar gripið til ótal annarra aðgerða til að bæta starfsaðstæður kennara og námsaðstæður barna en í dag er minn fókus á forvarnir sem snúa beint að kennurum.
„Nei það er ekki hægt, að vera minni maður
og láta slíkt og annað eins spyrjast út um sig“
Skömmin að vera fjarverandi frá leikskólanum í veikindum er mikil, skilningsleysi og þreyta samkennara vegna aukins álags getur myndað vítahring sem hefur áhrif á gæði kennslu.
Mig langar að ljúka þessum skrifum á hluta úr nýjum Siðareglum KÍ, til að undirstrika mikilvægi þess að eiga hrausta og glaða kennara í skólum landsins.
Fagmennska kennara snýr að samfélagi.
Kennari:
Gætir að heiðri og virðingu stéttar sinnar
Gætir að framkomu sinni á opinberum vettvangi
Er meðvitaður um samfélagsábyrgð sína
Gætir trúnaðar við nemendur og forráðamenn
Fagmennska kennara snýr að samstarfsfólki.
Kennari:
Leitast við að eiga góð og uppbyggileg samskipti
Gætir trúnaðar
Ber virðingu fyrir fjölbreytileika
Tekur þátt í faglegu samstarfi á uppbyggilegan hátt
Texti Ný Dönsk hér inn á milli en hann talar til mín um þessar mundir. Eflaust fleiri kennara í öllum skólagerðum um allt land!
„Þú! Þú opnar ekki augun fyrr en allt of seint,
opnar ekki augun fyrr en allt er orðið breytt.“
„Flýtum okkur hægt, gerum það í snatri.
Ég verð að láta fara lítið fyrir mér.
Hjálpaðu mér upp ...“
Hugsum út fyrir boxið!
Höfundur er leikskólakennari og frumkvöðull í forvörnum