Körfubolti

Ekki vitað hversu lengi Curry verður frá

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stephen Curry meiddist í síðasta Golden State Warriors.
Stephen Curry meiddist í síðasta Golden State Warriors. Getty Images

Stephen Curry, stórstjarna ríkjandi meistara í Golden State Warriors, verður ekki með liðinu í NBA deildinni í körfubolta á næstunni eftir að hafa meiðst á hné gegn Dallas Mavericks á dögunum.

Helstu fréttirnar úr NBA deildinni eru þær að Kyrie Irving er farinn frá Brooklyn Nets til Dallas Mavericks en það hefur lítið með Golden State að gera. Meistararnir eru eflaust meira að pæla í ásigkomulagi hins 34 ára gamla Curry.

Hann og leikmaður Dallas lentu hné í hné með þeim afleiðingum að Curry þurfti að yfirgefa völlinn. Eftir að hafa farið í myndatöku kom í ljós að um smávægilega rifu í liðbandi var að ræða og því missir stórstjarnan af leik Golden State og Oklahoma City Thunder í nótt.

Warriors hefur ekki gefið út hversu lengi Curry verður frá en í yfirlýsingu félagsins segir að nánari upplýsingar verði birtar á næstu dögum. Talið að Curry gæti misst af því sem yrði hans níundi Stjörnuleikur en sá fer fram 19. febrúar næstkomandi. Leikmaðurinn hefur nú þegar misst af 11 leikjum vegna meiðsla á leiktíðinni.

Það er stutt á milli hláturs og gráturs í Vesturdeildinni en Golden State er í 8. sæti með 27 sigra og 26 töp sem stendur. Liðið er þó aðeins tveimur leikjum frá 11. sæti sem myndi þýða að meistararnir myndu hvorki komast í umspilið né úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×