Innlent

Féll í höfnina en mundi ekki hvernig

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Maðurinn kunni ekki skýringar á því hvernig hann féll í höfnina.
Maðurinn kunni ekki skýringar á því hvernig hann féll í höfnina. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var í morgun kölluð til eftir að maður hafði fallið í höfnina á Miðbakka í miðbæ Reykjavíkur. 

Þetta kemur fram í skeyti sem lögregla sendi á fjölmiðla. Þar segir að útkallið hafi borist upp úr klukkan sjö í morgun. Lögregla var beðin um að aðstoða mann sem vildi komast undir læknishendur.

„Maðurinn reyndist vera mjög kaldur og allur fatnaður hans var gegnblautur. Í ljós kom að hann fallið í höfnina á Miðbakka í miðbæ Reykjavíkur en náð að komast af sjálfdáðum úr sjónum,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að maðurinn hafi ekki kunnað skýringar á því hvers vegna eða hvernig hann féll í sjóinn, þar sem hann mundi ekki eftir aðdragandanum.

Í tilkynningu lögreglu kemur einnig fram að í dag hafi borist þrjú útköll vegna ofneyslu fíkniefna. Í öllum tilvikum hafi sjúkrabifreið verið kölluð til að sinna viðkomandi einstaklingum, sem hafi fengið viðeigandi læknisþjónustu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×