Viðskipti innlent

Fljótel meðal sýnis­­gripa á ferða­­þjónustu­há­­tíð

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Lilja Alfreðsdóttir ráðherra og Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair mættu að sjálfsögðu á ráðstefnuna.
Lilja Alfreðsdóttir ráðherra og Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair mættu að sjálfsögðu á ráðstefnuna. Vísir/Egill/Arnar

Mid-Atlantic kaupstefnan fór fram í Laugardalshöll í dag, í fyrsta sinn í þrjú ár. Kaupstefnugestir segja mikinn vöxt hafa orðið í íslenskri ferðaþjónustu síðan ráðstefnan fór síðast fram og nauðsynlegt að mynda tengsl bæði vestan og austan Atlantshafs.

Icelandair hefur haldið Mid-Atlantic kaupstefnuna í þrjá áratugi. Fólki og fyrirtækjum frá bæði Evrópu og Ameríku er boðið að kaupa og selja vöru sína. Mikill vöxtur hefur orðið í geiranum hérlendis síðan ráðstefnan fór síðast fram fyrir þremur árum en jafnframt er von á miklum fjölda ferðamanna hingað til lands á árinu. 

Eftir djúpa Covid-lægð spáir ferðamálastofa því að 2,3 milljónir erlendra ferðamanna ferðist til Íslands á árinu, sem er svipað og árið 2018, þegar mest var.

„Það er mikill áhugi á því að koma til Íslands og það er auðvitað mjög jákvætt fyrir hagkerfið okkar og allar þær fjárfestingar sem hafa átt sér stað í ferðaþjónustunni,“ segir Lilja alfreðsdóttir ferðamálaráðherra sem var stödd á ráðstefnunni. 

Fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við Boga Nils Bogason forstjóra Icelandair í kvöldfréttum. Bogi er bjartsýnn og segir útlitið gott.

„Það sem við erum að sjá samkvæmt könnunum og fleiru er að fólk er að forgangsraða ferðalögum og upplifunum ofar heldur en áður. Fólk vill hitta vini og ættingja og vill ekki sitja fast einhvers staðar, sitja fast heima hjá sér. Þannig að eftirspurnin á okkar mörkuðum er mjög sterk í dag, sem er mjög ánægjulegt.“

Hann segir áherslur í ferðaþjónustu ekki hafa breyst mikið eftir faraldurinn. Einhverjar áhyggjur höfðu grafið um sig, um hvort fólk yrði hrætt við að sitja lengi í flugvélum eða forðast sams konar nánd við ókunnuga. Áhyggjurnar voru óþarfar að hans sögn.

„Við erum með metnaðarfulla áætlun í sölu fyrir árið, sumarið, og erum að bæta við áfagnastöðum og bókunarflæðið er sterkt. Þannig að útlitið er mjög gott fyrir ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn.“

Líta til Íslands sem fordæmis

Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki líta árið björtum augum.

„Þetta er ótrúlega mikilvæg atvinnugrein og gerir ótrúlega mikið fyrir þjóðarbúið þannig að við erum gríðarlega spennt fyrir framhaldinu og vonum að þessar spár rætist,“ Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi Lava Show.

Í Laugardalshöll mátti finna kynningar frá gamalgrónum Íslandsvinum, eins og Dönum, New York búum og Svíum. En þar voru líka nýliðar, eins og sendinefnd frá Norður-Karólínu, sem segir margt líkt með sínum heimaslóðum og Íslandi.

„Að sumu leyti, já. Ísland virðist vera langt á undan okkur hvað sjálfbærni varðar en við lítum til Íslands sem fordæmis,“ segir Heidi Walers, fulltrúi Visit North Carolina. 

Hið finnska fljótel

Meðal þess sem var til sýnis í Laugardalshöll var hið finnska fljótel, eða flothótel. Stofnandi flótelsins segir mikla möguleika hér á landi, til dæmis á Fjallsárlóni, þar sem tvö slík er þegar að finna.

„Þetta er rosa spennandi og mikil jákvæðni í kring um þetta. Fólk hefur mjög gaman af þessu verkefni,“ segir Steinþór Arnarson, eigandi og framkvæmdastjóri Fjallsárlóns. 

„Ísland er nýr markaður fyrir okkur. Við erum að koma inn á nýja markaði svo það er upplagt fyrir okkur að vera hér,“ bætir Tomi Sipola, einn eigenda Aurora Hut, við. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×