Icelandair hefur áður flogið í leiguflugi til Krítar en nú er í fyrsta sinn boðið upp á áætlunarflug þangað. Fyrsta flug er 26. maí 2023 og flogið verður út september. Flugið er um 5 klukkustundir og 45 mínútur.
„Krít er stærst grísku eyjanna og fimmta stærsta eyjan í Miðjarðarhafinu. Þar er að finna merkilegar fornminjar, fallegar strendur, tilkomumikið fjallalandslag og ríkulega matarmenningu,“ segir í tilkynningu.
„Krít er Íslendingum kunnur áfangastaður og þangað er margt að sækja, hvort sem er miðjarðarhafsstrendur, náttúra, saga eða grísk matargerð. Það er mjög spennandi að bæta Krít inn í alþjóðlega leiðakerfið okkar sem nær nú til 47 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku.
Eftir samþættingu Icelandair og ferðaskrifstofunnar Vita hafa skapast spennandi tækifæri eins og þessi til þess að efla leiðakerfið okkar og auka þjónustuna við viðskiptavini,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.