Innlent

Nokkrir liggja undir grun vegna þjófnaðar úr verslun í gær

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gær.
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gær. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning í gær þar sem tilkynnt var um vinnuslys í Hafnarfirði en þar hafi frosin jarðvegur hrunið ofan í holu, ofan á fót starfsmanns verktakafyrirtækis.

Starfsmaðurinn var ekki talinn vera alvarlega slasaður en var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.

Lögreglu bárust einnig tvær tilkynningar um þjófnaði úr verslunum í póstnúmerunum 108 en í öðru tilvikinu leikur grunur á að nokkrir einstaklingar hafi komið við sögu. Meiri upplýsingar er þó ekki að finna í tilkynningu lögreglu um verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Í póstnúmerinu 103 var tilkynnt um skemmdarverk en þau höfðu verið unnin á innkaupakerru. Var skemmdarvargurinn látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Í póstnúmerinu 113 var tilkynnt um einstakling sem féll í hálku.

Í Hafnarfirði var einnig tilkynnt um eld í ruslatunnum og um umferðaróhapp, þar sem bifreið og vespa rákust saman. Meiðsl einstaklingsins á vespunni voru talin minniháttar en eietthvað tjón varð á ökutækjunum.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni grunaðir um umferðalagabrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×