Dómurinn féll í Svíþjóð fyrr í dag, en í frétt SVT kemur fram að dómari hafi metið það sem svo að Bonnesen hafi látið orð falla sem hafi verið óskýr og ónákvæm en að langstærstum hluta verið sannleikanum samkvæm.
Upp komst um málið í fréttaskýringaþætti SVT, Uppdrag granskning, í febrúar 2019. Hlutabréf í bankanum féllu um rúmlega tuttugu prósent eftir að upp komst um málið. Efnahagsbrotadeild sænsku lögreglunnar tók málið til rannsóknar eftir sýningu þáttarins og var ákæra birt í janúar á þessu ári. Í ákæru sagði að Birgitte Bonnesen hafi að hafa dreift villandi upplýsingum um aðgerðir Swedbank til að koma í veg fyrir og tilkynna að grunur væri um peningaþvætti í útibúi bankans í Eistlandi.
Bonnesen var sömuleiðis ákærð fyrir innherjasvik þar sem hún átti að hafa upplýst stærsta eiganda bankans um hvað kæmi fram í þætti Uppdrag granskning áður en hann var sýndur og þá áður en upplýsingarnar hafi verið gerðar opinberar.
Bonnesen, sem var forstjóri Swedbank á árunum 2016 til 2019, neitaði sök í málinu, en saksóknari í málinu fór fram á að Bonnesen yrði dæmdi í tveggja ára fangelsi.
Málið þykir einstakt en Bonnesen er fyrsti fyrrverandi forstjóri sænsks stórbanka sem dreginn er fyrir dóm í marga áratugi.