Ráðning nýs forstjóra Sjúkratrygginga vakti athygli í vikunni en eins og fyrr segir var ekki auglýst í starfið. Undantekningarheimild er í lögum sem gerir stjórnvöldum kleift að „færa“ starfsmann úr einu embætti í annað, án auglýsingar. Heimildina nýtti Lilja Dögg Alfreðsdóttir til að mynda við umdeilda skipun Þjóðminjavarðar fyrr á árinu.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði við fréttastofu að loknum ríkisstjórnarfundi í gær að undantekningarheimildin væri ekki orðin að almennri reglu. Í tilviki nýráðins forstjóra Sjúkratrygginga hafi þó verið tilvalið að nýta heimildina, enda taldi heilbrigðisráðherra Sigurð Helga svo öflugan að ekki væri ástæða til að auglýsa.
„Auðvitað er þetta hálf kjánalegt“
Hanna Katrín Friðriksdóttir þingmaður Viðreisnar segir athæfið ekki til eftirbreytni.
„Þetta slær mig náttúrulega ekki vel. Við vitum það að auglýsingar og það að hafa opið og gegnsætt, bæði umsóknarferli og ráðningarferli, miðar að því að ráða hæfustu manneskjuna til starfa. Og það sem er ekki síður mikilvægt er að skapa traust um það nákvæmlega hvernig fólk velst í þessar opinberu stöður, þessar háu stöður.“
Hún segir gagnrýnina ekki snúast um þann sem var valinn var í starfið persónulega, frekar en í fyrri tilfellum. Málið snúist um það verkefni stjórnvalda að viðhalda trausti almennings.
„Auðvitað er þetta hálf kjánalegt, vegna þess að hæf manneskja hefði þá bara farið fljúgandi í gegnum umsóknarferlið og allir vita það að þarna var verið að ráða hæfustu manneskjuna. Og allir verið sáttir þannig séð. Þannig að aftur, algjörlega burtséð frá þeirri manneskju sem um er að ræða, og ég dreg það ekkert í efa að hún sé hæf, [þá geta] hvorki ég né ráðherra – né aðrir – vitað hvort hún var best í starfið.“