Skoðun

Af hverju þarf Eflingar­fólk að fá meira en lands­byggðar­fólk

Stefán Ólafsson skrifar

Mun hærri húsnæðiskostnaður á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu skýrir hvers vegna Eflingarfólk þarf meiri hækkanir en Starfsgreinasambandið (SGS) samdi um nýlega, einfaldlega til að ná endum saman.

Greidd húsaleiga er að meðaltali 220.000 krónur á höfuðborgarsvæðinu en um 152.000 kr. á landsbyggðinni, eða um 68.000 krónum hærri – í hverjum mánuði. Kaupverð íbúða er sömuleiðis miklu hærra á höfuðborgarsvæðinu. Enginn kemst undan húsnæðiskostnaðinum.

Þetta er sýnt á einfaldan hátt á meðfylgjandi myndum, sem miðast við fullvinnandi einhleypa einstaklinga í verkalýðsstétt, sem búa í leiguhúsnæði (50 fm íbúð) og eru á meðallaunum samkvæmt hinum nýja samningi SGS.

Mánaðarlaun eru 426 þúsund. Af þeim er dreginn skattur og iðgjöld í lífeyrissjóði (um 86 þúsund kr.), en við bætast húsaleigubætur (40.633 kr.). Þá standa eftir rúmar 380 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur til að greiða framfærslukostnað. Framfærslukostnaður án húsnæðiskostnaðar einhleypra á höfuðborgarsvæðinu er um 256 þúsund kr. um þessar mundir og meðal húsaleiga fyrir litla íbúð (50 fm) er 165.000 kr.

Einstaklingur í þessari stöðu nær ekki endum saman. Hann vantar rúmar 40 þúsund kr. aukalega í ráðstöfunartekjur á mánuði til þess.

Þess vegna þarf Eflingarfólk meiri launahækkun en SGS samningurinn skilar.

Aðstæður eru hins vegar öðruvísi á landsbyggðinni þar sem húsnæðiskostnaður er mun minni, eða sem nemur um 55 þúsund krónum fyrir litla leiguíbúð (50 fm að stærð). Samsvarandi munur er á húsnæði af öðrum stærðum.

Á næstu mynd má sjá hvernig samsvarandi afkomudæmi fyrir landsbyggðina lítur út.

Allt annað en leiga er eins í þessum samanburði. Meðalleiga skv. uppreiknuðum upplýsingum frá Þjóðskrá fyrir 50 fm íbúð er um 110 þúsund krónur á landsbyggðinni á meðan hún er um 165 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir svona litlar íbúðir er leigan lægri en meðalleiga á svæðunum, sem nefnd var í byrjun greinarinnar.

Þetta skilar þeim sem er á meðaltaxta Starfsgreinasambandsins um 14 þúsund krónum í afgang í hverjum mánuði á meðan Eflingarfólk þarf að glíma við um 40 þúsund króna halla. SGS samningurinn er þannig meira viðunandi fyrir landsbyggðarfólk en fyrir Eflingarfólk, þó ekki séu þetta glæsileg kjör.

Allir hljóta að skilja að laun þurfa að duga fyrir framfærslu og ef húsnæðiskostnaður er allur annar þurfa kjarasamningar að reyna að brúa það, ef ekki tekst að gera það með húsnæðisbótum. Þær eru hinar sömu hjá láglaunafólki á meðaltaxta SGS (eins og sést á myndunum) en þegar laun fara upp fyrir það skila þær sér betur til landsbyggðarfólks en á höfuðborgarsvæðið. Það er alvarlegur galli á húsnæðisstuðningnum.

Verkalýðsforingjar á landsbyggðinni þurfa að viðurkenna þennan grundvallarmun og ættu að fagna því ef Eflingu tækist að gera stöðu láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu meira viðunandi, í stað þess að ganga í lið með atvinnurekendum við að þvinga ófullnægjandi samning upp á Eflingarfólk. En um 55 þúsund kr. vantar inn í ráðstöfunartekjur verkafólks á HB-svæði til að jafna afkomustöðuna milli Eflingarfólks og landsbyggðarfólks á almennum vinnumarkaði.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.

Gögnin koma frá Ríkisskattstjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, félagsmálaráðuneytinu og Hagstofu Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×