Í gær greindum við frá því að Sigurður Helgi Helgason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafi verið skipaður forstjóri Sjúkratryggingar. Samkvæmt heimildum fréttastofu var Sigurður skipaður án þess að starfið væri auglýst.
Ákvörðun sem tryggi samfellu
„Almenna reglan er auðvitað að auglýsa og við fylgjum henni. Það er hins vegar heimild til þess að skipa í stöður og þarna erum við með stjórnanda sem hefur bakgrunn og þekkingu, sérþekkingu á málefnum þessarar stofnunar tilteknu og málefnum heilbrigðisþjónustunnar. Til þess að tryggja samfellu, það er öflugur stjórnandi að fara frá og til að tryggja samfellu í starfsemi stofnunarinnar þá tók ég þá ákvörðun um að skipa Sigurð Helgason í embætti sjúkratrygginga.“
Sagði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra í samtali við Bjarka Sigurðsson fréttamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Svo hæf að ekki var talin ástæða til að auglýsa starfið
Í haust skapaðist mikil umræða um umdeilda ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra um að skipa Hörpu Þórsdóttir í embætti þjóðminjavarðar án auglýsingar. Lilja sagði að Harpa væri mjög hæf.
„Og Harpa Þórsdóttir, sem hefur verið safnstjóri í Listasafni Íslands, hún er sérstaklega hæf og uppfyllir öll þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar,“ sagði Lilja að loknum ríkisstjórnarfundi þann 30. ágúst 2022.
Í kjölfarið ákvað Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra að ráðist í gerð samantektar um flutning embættismanna.
Fylgir þeirri reglu að auglýsa en ekki í tilviki Sigurðar
Þessi heimild sem þú nýtir er undantekningaheimild. Er hún ekki orðin að almennri reglu hjá þessari ríkisstjórn?
„Ég skil þetta þannig að þetta sé í undantekningartilvikum. Ég hef fylgt þeirri reglu að auglýsa en í þessu tilviki erum við með öflugan stjórnanda með öflugan bakgrunn sem talar mjög vel inn í það sem til þarf til að leiða þessa stofnun og þess vegna tók ég þá ákvörðun.“