Innlent

Ölvun og átök á veitingastöðum borgarinnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti þremur útköllum á veitingastaði í gær.
Lögregla sinnti þremur útköllum á veitingastaði í gær. Vísir/Vilhelm

Lögregla var tvisvar kölluð til í miðborginni í gær vegna einstaklinga sem voru með vesen á veitingastöðum. Í öðru tilvikinu aðstoðaði lögregla við að vísa manni út vegna ölvunarástands og í hinu var öðrum manni fylgt út vegna „óspekta“.

Frá þessu greinir í tilkynningu lögreglu um verkefni næturinnar.

Lögregla sinnti einnig þriðja útkallinu á veitingastað vegna slagsmála nokkurra einstaklinga. Minniháttar áverkar voru á mönnum, samkvæmt tilkynningunni, og óvíst hvort kærur verða lagðar fram.

Nokkrar hávaðakvartanir bárust lögreglu í miðbænum.

Í umdæminu Garðabær og Hafnarfjörður var tilkynnt um innbrot og þjófnað í fyrirtæki. Þar hafði raftækjum verið stolið. Þá var tilkynnt um kannabislykt á stigagangi en engin efni fundust við leit.

Í Breiðholti/Kópavogi var tilkynnt um innbrot í geymslu í sameign og í Árbæ/Grafarvogi/Mosfellsbæ var yfirgefin bifreið fjarlægð með dráttarbíl þar sem hún skapaði hættu.

Nokkrir voru stöðvaðir í höfuðborginni vegna ýmissa umferðarlagabrota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×