Erlent

Blaðið og penninn fá uppreist æru í áströlskum háskólum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gervigreind fylgja bæði hættur og tækifæri.
Gervigreind fylgja bæði hættur og tækifæri. Getty/NurPhoto/Jonathan Raa

Ástralskir háskólar hafa neyðst til að breyta því hvernig þeir haga prófum og öðru námsmati, þar sem nemendur hafa verið staðnir að því að nota gervigreind við ritgerðaskrif. 

Stendur nú skýrt í reglum að notkun gervigreindar jafngildi svindli.

Sérfræðingur í gervigreind segir háskólana hins vegar í „vopnakapphlaupi“ sem þeir geti ekki unnið.

ChatGPT er meðal þeirra gervigreindarforrita sem vakið hafa sérstaka athygli á síðustu misserum og hefur þegar verið bannað á öllum tækjum nemenda í skólum í New York vegna áhyggja af „neikvæðum áhrifum á nám“ og möguleikanum á ritstuldi.

Í Lundúnum gerði einn fræðimaður tilraun þar sem hann mataði ChatGPT á prófspurningu frá 2022 en hann sagði í kjölfarið að svarið hefði verið skiljanlegt, náð utan um efnið og komið aðalatriðum á framfæri, eitthvað sem nemendur ættu oft erfitt með.

Forritið virðist þannig geta skilað skjótu og trúverðugu svari, eða jafnvel heilli ritgerð, sem myndi standast allar prófanir sem ætlað er að koma upp um ritstuld. Enda um „frumleg“ skrif að ræða.

Samstarfsvettvangur átta stærstu rannsóknarháskóla Ástralíu ræðir nú leiðir til að mæta vandanum. Meðal úrræða sem gripið verður til á þessu ári er aukin yfirseta í prófum og prófa þar sem gripið verður til gamalla ráða; blaðs og penna.

Forsvarsmenn skólanna gera sér hins vegar grein fyrir því að gervigreind er það sem koma skal og mun meðal annars nýtast við kennslu. Þess vegna sé mikilvægt að kenna nemendum að nota hana á lögmætan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×