Luiz Inácio Lula da Silva tók við sem forseti Brasilíu á nýársdag en hann hafði betur gegn fyrrverandi forsetanum Jair Bolsonaro í forsetakosningunum þann 30. október.
Stuðningsmenn Bolsonaro mótmæltu víða þar sem þeir neituðu að sætta sig við úrslit kosninganna og náðu þau mótmæli hámarki í gær þegar þeir réðust inn í opinberar byggingar í höfuðborginni, þar á meðal brasilíska þinghúsið.
Á annað þúsund voru handteknir auk þess sem tugir særðust og hafa yfirvöld gripið til ýmissa aðgerða til að koma í veg fyrir frekari óeirðir. Forsetinn sagði árásina hafa verið af hálfu fasista og skemmdarvarga.
„Það er ekkert fordæmi í sögu landsins. Það er ekkert fordæmi fyrir því sem þetta fólk gerði en þessu fólki verður refsað,“ sagði forsetinn í ávarpi í gær.
- Manifestações pacíficas, na forma da lei, fazem parte da democracia. Contudo, depredações e invasões de prédios públicos como ocorridos no dia de hoje, assim como os praticados pela esquerda em 2013 e 2017, fogem à regra.
— Jair M. Bolsonaro 2 2 (@jairbolsonaro) January 9, 2023
Bolsonaro var sjálfur staddur í Bandaríkjunum þegar óeirðirnar hófust en í færslum á Twitter virtist hann fordæma aðgerðir stuðningsmanna sinna. Friðsamleg mótmæli væru hluti af lýðræðinu en óeirðir væru það ekki.
Of mörg merki þess að verið sé að vega að lýðræðinu
Fjöldi þjóðarleiðtoga hefur fordæmt óeirðirnar og utanríkisráðherra Íslands segir atburðarásina í gær hafa verið ógnvekjandi og hryggileg.
„Þetta er ofbeldi, það er verið að vega að lýðræðislegum stofnunum og þetta er atlaga að lýðræðinu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Atburðarásin í gær minnir óneitanlega á árásina á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar fyrir tveimur árum. Ákveðinn pólarísering og upplýsingaóreiða sé að eiga sér stað víða.
„Við sjáum þarna að þetta gerist ekki í algjöru tómarúmi. Það eru tvö ár síðan við horfðum upp á atburðarásina í Bandaríkjunum og við sjáum einfaldlega of mörg merki þess að það er svona með einhverjum hætti verið að vega að lýðræðinu,“ segir Þórdís.
Nauðsynlegt sé að fordæma slíka atburði um leið og þeir koma upp. Ljóst sé að hlutirnir geti versnað á skömmum tíma og þó hún sjái ekki fyrir sér að sambærileg atburðarás eigi sér stað hér á landi segir hún mikilvægt að allir séu á tánum.
„Við auðvitað stöndum ekki frammi fyrir sömu áskorunum en við erum ekki ónæm fyrir þeim og við getum ekki tekið því sem sjálfsögðum hlut. Það er kannski eitthvað fyrir okkur til þess að hugsa um, að lýðræðið er heldur ekki sjálfsagður hlutur sem er bara gefinn að eilífu, það þarf að vinna fyrir því, hafa fyrir því og standa vörð um það,“ segir Þórdís.