Körfubolti

Darri Freyr segist ekki hafa heyrt frá Tindastóli

Valur Páll Eiríksson skrifar
Darri Freyr Atlason

Darri Freyr Atlason er efstur á blaði Tindastóls sem leitar nýs þjálfara meistaraflokks karla í körfubolta. Darri kveðst þó ekki hafa hafið viðræður við Stólana.

Ríkharð Óskar Guðnason greindi frá í fréttum á Stöð 2 í kvöld. Darri Freyr var síðast þjálfari karlaliðs KR en hætti þar störfum sumarið 2021 vegna anna á öðrum vettvangi.

Leiðrétt kl. 19:45: Í stuttu samtali við Vísi tekur Darri Freyr fyrir að vera í viðræðum við Tindastól líkt og greint var frá fyrr í kvöld.

Tindastóll sagði Króatanum Vladimir Anzulovic upp sem þjálfara liðsins í gær og sagði í tilkynningu að þeir Svavar Atli Birgisson og Helgi Freyr Margeirsson muni ásamt Ísaki Óla Traustasyni stýra liðinu á meðan leit að öðrum þjálfara stendur yfir.

Liðið gerir nú allt sem það getur til að sannfæra Darra Frey um að taka við liðinu en hann á ættir að rekja til Sauðárkróks. Áhugavert verður að sjá hvort Stólarnir geti samið við Darra vegna þeirra anna hans í starfi sem gerðu að verkum að hann þurfti að segja upp í Vesturbæ.

Tindastóll fór alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta á síðasta tímabili en hefur unnið helming leikja sinna í deildinni í vetur og situr í sjöunda sæti deildarinnar.

Stólarnir sækja ÍR heim í Breiðholt á fimmtudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×