Erlent

Banda­rískir bændur fá leyfi til að gera sjálfir við traktorana sína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
John Deere er einn stærsti framleiðandi traktora og landbúnaðarvéla í heiminum.
John Deere er einn stærsti framleiðandi traktora og landbúnaðarvéla í heiminum.

Bændur í Bandaríkjunum hafa unnið sigur í baráttunni gegn einum stærsta framleiðanda landbúnaðarvéla í heiminum og munu héðan í frá geta gert við eigin traktora eða látið gera við þá á verkstæðum sem eru ekki í eigu Deere & Co.

Regnhlífasamtök aðila í landbúnaði (AFBF) og forsvarsmenn Deere & Co. undirrituðu samkomulag í gær sem felur í sér að eigendur landbúnaðarvéla megi gera sjálfir við tækin eða leita til sjálfstæðra verkstæða.

Á sama tíma skuldbinda þeir sig til að gera ekki breytingar á grunn- og öryggisbúnaði vélanna.

Þá mega þeir ekki „gefa upp viðskiptaleyndarmál“.

Bændur sem hafa barist fyrir því að geta sjálfir gert við vélarnar sínar í stað þess að leita til viðurkenndra John Deere þjónustuaðila, sem rukka jafnan meira fyrir viðgerðir og varahluti, eru hluti stærri hreyfingar neytenda sem krefjast þess að viðgerðir verði gefnar frjálsar, ef svo má að orði komast.

Það er að segja, að neytendum verði heimilt að gera sjálfir við eða leita til sjálfstæðra verkstæða, án þess að það hafi áhrif á ábyrgðarskilmála umræddrar vöru.

Apple svaraði kallinu í fyrra, þegar eigendur iPhone fengu heimild til að skipta sjálfir um rafhlöður, skjái og myndavélar.

Ástandið í Bandaríkjunum er öllu verra en í Evrópu, þar sem reglur eru í gildi sem skikka framleiðendur til að sjá til þess að varahlutir séu fáanlegir fyrir bæði neytendur og sjálfstæða viðgerðaraðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×