Fótbolti

Leeds fór illa að ráði sínu gegn B-deildar liði Cardiff

Atli Arason skrifar
Rodrigo tekur spyrnuna sem Jak Alnwick varði síðar.
Rodrigo tekur spyrnuna sem Jak Alnwick varði síðar. Getty Images

Úrvalsdeildarliðið Leeds United lenti í vandræðum með B-deildar lið Cardiff City í ensku FA bikarkeppninni í dag en liðin gerðu 2-2 jafntefli. 26 sæti skilja liðin af en Cardiff er í 20. sæti Championship deildarinnar á meðan Leeds er í 14. sæti úrvalsdeildarinnar.

Cardiff var tveimur mörkum yfir í hálfleik þökk sé mörkum frá Jaden Philogene-Bidace og Sheyi Ojo en Rodrigo kom inn á hjá Leeds sem varamaður í leikhléinu og hann minnkaði muninn á 65. mínútu. Tíu mínútum fyrir leikslok missti Cardiff leikmann af velli þegar Joel Bagan handlék knöttinn innan vítateigs og Leeds fékk vítaspyrnu, sem Rodrigo tók. Jak Alnwick, markvörður Cardiff, sá hins vegar við Rodrigo og varði vítaspyrnuna.

Lukkudísirnar höfðu ekki endanlega yfirgefið Leeds þar sem hinn 18 ára Sonny Perkins jafnaði metin á þriðju mínútu uppbótatíma leiksins og 2-2 jafntefli varð niðurstaðan en liðin þurfa því að leika öðru sinni um hvort liðið fer áfram í 32-liða úrslit.

Í öðrum leikjum dagsins gerðu Bristol City og Swansea 1-1 jafntefli, Derby vann Barnsley 3-0, Stoke sigraði Hartlepool 3-0, Blackburn sló Norwich út eftir 1-0 sigur og þá vann Walsall 2-1 sigur á Stockport County.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×