Handbolti

„Höllin var æðis­leg“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Janus Daði Smárason var mjög sáttur með stuðninginn í kvöld og líka glaður með leikinn og að mótið sé byrjað.
Janus Daði Smárason var mjög sáttur með stuðninginn í kvöld og líka glaður með leikinn og að mótið sé byrjað. Getty/Sanjin Strukic

Janus Daði Smárason átti mjög góðan leik með íslenska landsliðinu í kvöld og var valinn besti maður leiksins af mótshöldurum. Janus Daði kom inn af bekknum og skilaði átta mörkum úr níu skotum og bætti við fimm stoðsendingum.

„Það var gaman að byrja loksins enda búinn að bíða lengi. Höllin var æðisleg og það var ótrúlegt að sjá alla Íslendinga í stúkunni. Þetta gefur okkur mikið og mér fannst þetta vera sérstakt strax í þjóðsöngnum. Ég er bara glaður,“ sagði Janus Daði eftir leikinn.

Janus kom hungraður inn af bekknum í kvöld.

„Ég held að við séum það allir. Ég er nú að fara núna á níunda stórmótið og það er því vonandi að maður hérna sé með smá rútínu og geti hjálpað liðinu,“ sagði Janus Daði.

Hefði viljað spila klukkan tvö í dag

„Ég hefði viljað spila leikinn klukkan tvö í dag. Ég var búinn að bíða lengi og þetta var leiðinlegur dagur að þurfa að bíða svona óþreyjufullur. Nú er þetta bara komið. Tvö stig og við getum farið að hvíla okkur aðeins eftir þennan leik og undirbúa okkur fyrir Pólverja,“ sagði Janus Daði.

Leikurinn voru mikil hlaup gegn óhefðbundnum varnarleik Ítalanna.

„Ég vil hrósa Ítölunum líka. Þeir bara pumpuðu allan leikinn með þessum árásum og ég lét ná mér þarna í lokin. Það var fínt að komast bara inn á völlinn, spila, fíla þetta og nú þurfum við bara að bæta okkur frá leik til leiks,“ sagði Janus Daði.

Voru búnir að æfa þetta mikið

Íslenska liðið prófaði að spila fjórir fyrir utan á móti Ítölunum sem var krókur á móti bragði gegn liði sem er spilað þetta mikið sjálft. Hefur Janus spilað slíkt mikið áður?

„Þetta er náttúrulega aðeins öðruvísi og þú ert ekki vanur að vera akkúrat í þessum aðstæðum þar sem leikmennirnir eru svona stilltir upp. Við erum nú fljótir að venjast því og vorum náttúrulega að æfa þetta mikið núna fyrir leik,“ sagði Janus Daði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×