Fótbolti

Guð­rún klæðist grænu á nýjan leik

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Arnardóttir er orðin grænklædd á nýjan leik.
Guðrún Arnardóttir er orðin grænklædd á nýjan leik. Hammarby

Íslenska landsliðskonan Guðrún Arnardóttir hefur fundið sér nýtt félag, eftir skamma dvöl í Portúgal, og snýr nú aftur í toppbaráttu sænsku úrvalsdeildarinnar til félags með íslenskan yfirmann íþróttamála.

Guðrún, sem er þrítugur varnarmaður með 57 A-landsleiki, hefur skrifað undir samning við Hammarby sem gildir út árið 2027.

Hún þekkir sænsku úrvalsdeildina út og inn eftir að hafa þrisvar sinnum orðið Svíþjóðarmeistari með Rosengård.

Guðrún fór frá Rosengård í fyrra til Braga í Portúgal en staldraði stutt við þar eða aðeins hálft ár. „Þessum stutta kafla er lokið. Stundum passa hlutirnir ekki saman en hver vegferð kennir þér eitthvað. Ég er þakklát fyrir reynsluna og frábæru samherjana mína. Opnum næsta kafla,“ skrifaði Guðrún í lok síðasta árs þegar hún kvaddi Braga. 

Nú er ljóst að sá kafli verður skrifaður hjá Hammarby.

Yfirmaður íþróttamála hjá Hammarby er Skagamaðurinn Arnór Smárason sem fagnar komu Guðrúnar:

„Við erum að fá landsliðskonu sem færir hópnum reynslu og þekkingu. Hún er leiðtogi með jákvætt hugarfar, hefur reynslu úr sænsku úrvalsdeildinni og af því að vinna titla. Guðrún er spennt og tilbúin að koma inn og leggja sitt af mörkum hjá Hammarby,“ segir Arnór á vef félagsins.

Hammarby hafnaði í 2. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, aðeins fjórum stigum á eftir meisturum Häcken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×