Viðskipti innlent

Krafa um á­fengi og til­búna rétti hafi alltaf legið fyrir

Árni Sæberg skrifar
Joe & The Juice mun loka báðum veitingastöðum sínum í Leifsstöð.
Joe & The Juice mun loka báðum veitingastöðum sínum í Leifsstöð. Aðsend

Mikla athygli vakti í dag þegar aðstandendur veitingastaðakeðjunnar Joe & The Juice tilkynntu að þeir hefðu dregið sig úr útboðsferli Isavia varðandi veitingasölu á Keflavíkurflugvelli vegna kröfu um áfengissölu og sölu tilbúinna rétta. Í tilkynningu frá Isavia segir að krafan hafi legið fyrir allt frá því að útboðsferlið hófst snemma á síðasta ári.

Í tilkynningu Joe & The Juice segir að krafan samræmist ekki áherslum keðjunnar. „Joe & The Juice hefur ekki selt áfengi á sínum stöðum og sömuleiðis hefur staðurinn aldrei boðið upp á mat sem útbúinn var mörgum klukkustundum áður. Þvert á móti er það eitt helsta einkenni staðarins að bjóða upp á eins ferskar samlokur og djúsa og mögulegt er, sem útbúnir eru eftir pöntun,“ segir í tilkynningunni.

Því verði báðum veitingastöðum fyrirtækisins lokað á næstu mánuðum eftir tæplega átta ára veru í flugstöðinni.

Þá er jafnframt haft eftir Birgi Bieltvedt, eiganda keðjunnar á Íslandi, að krafan hafi komið á óvart þegar útboðsgögn voru gefin út síðasta sumar en samt sem áður hafi verið ákveðið að taka þátt í útboðinu. Í útboðsferlinu hafi svo komið í ljós að mikil áhersla væri lögð á ýmsa þætti sem hefðu þýtt stórfelldar breytingar á „konsepti“ Joe & The Juice.

Megináherslan fjölbreytt framboð

Isavia brást við fjölmiðlaumfjöllun um málið með því að senda frá sér fréttatilkynningu. Þar segir að útboðið sem um ræðir taki til þriggja veitingarýma í flugstöðinni sem séu boðin út sem ein heild og að það sé á lokastigi.

„Þar er lögð megináhersla á fjölbreytt framboð fyrir farþega í veitingaþjónustu. Það þýðir að mismunandi vörumerki geta tekið höndum saman og unnið í sama rými til að uppfylla þær kröfur. Það hefur verið gert í fyrri útboðsniðurstöðum og er alþekkt fyrirkomulag á alþjóðaflugvöllum um allan heim,“ segir í tilkynningunni.

Þá er haft eftir Gunnhildi Erlu Vilbergsdóttur, deildarstjóra verslunar og veitinga hjá Isavia, að snemma á síðasta ári hafi verið haldinn vel sóttur kynningarfundur um væntanleg útboð á verslunar- og veitingarými á Keflavíkurflugvelli. Tilgangur fundarins hafi einnig verið að leiða saman rekstraraðila sem gætu unnið saman að útboðum. Síðan hafi verið haldin útboð sem öll hafi gengið vel og leitt til niðurstöðu sem muni auka úrval á mat, drykk og verslunartækifærum á Keflavíkurflugvelli.

Kröfurnar hafi legið fyrir frá upphafi

Þá segir að Isavia sé skylt að bjóða út alla verslunar- og veitingaþjónustu í flugstöðinni á nokkurra ára fresti á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og þau útboð séu opin öllum. 

„Það hefur legið fyrir frá upphafi hverjar kröfurnar væru og kom það fram á kynningarfundi fyrir tæpu ári og í öllum útboðsgögnum,“ segir í tilkynningu.

Að lokum hvetur Isavia sem fyrr alla áhugasama rekstraraðila til að kynna sér öll útboð fyrirtækisins sem verða síðar á þessu ári og endilega taka þátt.


Tengdar fréttir

Joe & the Juice gefast upp á Leifs­stöð

Veitingastaðurinn Joe & The Juice hefur dregið sig út úr útboðsferli Isavia varðandi veitingasölu á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Joe & Juice. Fyrirtækið hefur verið með sölustaði á flugvellinum um árabil. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×