Flóðgáttirnar opnuðust hjá Tottenham

Smári Jökull Jónsson skrifar
Heung-Min Son fékk loksins að fagna í kvöld.
Heung-Min Son fékk loksins að fagna í kvöld. Vísir/Getty

Tottenham Hotspur vann 4-0 stórsigur á útivelli gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Þetta er fyrsti sigur Tottenham eftir að deildin fór af stað á nýjan leik eftir hlé.

Tottenham hefur ekki farið neitt sérlega vel af stað í deildinni eftir að hún hófst að nýju í kjölfar pásunnar vegna heimsmeistaramótsins í Katar. Liðið gerði jafntefli gegn Brentford á annan í jólum og tapaði svo fyrir Aston Villa á heimavelli í síðustu umferð.

Eftir fyrri hálfleikinn var heldur ekki mikið sem benti til að hlutirnir væru að fara að breytast. Staðan var þá 0-0 og eflaust farið að fara um einhverja stuðningsmenn Tottenham sem og Antonio Conte á hliðarlínunni.

Í seinni hálfleik brast hins vegar stíflan. Harry Kane skoraði tvö mörk strax í upphafi seinni hálfleiks, fyrst á 48.mínútu eftir sendingu Ivan Perisic og svo annað mark fimm mínútum seinna eftir sendingu hins unga Bryan Gil.

Bakvörðurinn Matt Doherty skoraði þriðja mark Spurs á 68.mínútu og Suður-Kóreumaðurinn Heung-Min Son bætti fjórða markinu við á 72.mínútu.

Lokatölur 4-0 Tottenham í vil sem er nú fimm stigum á undan Liverpool í fimmta sæti deildarinnar sem reyndar á leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira