Umræðan

Óður til sprengjugleðinnar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Seltjarnarnesbær stóð ekki fyrir flugeldasýningu á Valhúsahæð þetta árið en í tilkynningu til bæjarbúa kom fram að öryggis- og umhverfissjónarmið hefðu vegið þyngst. Ákvörðunin var svo sem í samræmi við afstöðu Umhverfisstofnunar sem beindi því vinsamlega til landsmanna fyrir jól að finna sér umhverfisvænni áramótahefðir, svo sem að öskra árið burt.

Flugeldar eru forvitnilegir frá sjónarhóli hagfræðinnar. Stakar sprengingar eru ekkert sérlega tilkomumiklar, hvorki fyrir kaupanda flugeldsins né áhorfandann, en eftir því sem fleiri taka þátt magnast sjónarspilið. Í þeim skilningi eru flugeldar dæmi um almannagæði og leikjafræðilögmálin sem þau lúta. Þegar ákveðnum fjölda þátttakenda er náð verður niðurstaðan stórfengleg ljósadýrð sem allir geta notið.

Og það er einmitt vandinn: hver sem vill getur brugðið sér í hlutverk laumufarþegans og notið gæðanna án þess að taka þátt í framleiðslu þeirra og þess vegna er hin mesta furða að flugeldakaup séu eins mikil og raun ber vitni. Í fáeina klukkutíma á hverju ári reiðum við okkur á það að nógu margir virði þennan óskrifaða undirkafla í samfélagssáttmálanum. Þetta er gríðarstórt þjóðarátak.

Vissulega ber samfélagið kostnað af notkun flugelda í formi loftmengunar og hljóðmengunar. Vægi og hlutverk flugelda í samfélaginu hlýtur þannig að ráðast af því hvernig við metum jákvæðu áhrifin gagnvart hinum neikvæðu. En þá þurfum við að taka með í reikninginn að hér á landi hefur myndast sú gæfuríka hefð að kaupa flugelda af björgunarsveitum.

Öllum er ljóst hver niðurstaðan verður ef björgunarsveitir verða settar á fjárlög þegar flugeldasalan þornar upp.

Með þessum hætti tekst okkur að slá tvær flugur í einu höggi: flugeldasýning sem allir geta notið fjármagnar almannavarnarkerfi sem bjargar mannslífum. Skammvinn loftmengun, sem er ólíkleg til að valda heilsubresti ein og sér, og óþægindi fyrir gæludýr eru vægt gjald fyrir slíka patentlausn.

Þrátt fyrir allt þetta er flugeldahefðin á undanhaldi. Ár hvert fjölgar í hópi þeirra sem vilja banna sölu á flugeldum til einkanota og virðist sem svo að þróunin sé einna helst knúin af ungu, vinstrisinnuðu fólki á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt könnun Maskínu frá árinu 2019 vildi mikill meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata takmarka flugeldasölu með einum eða öðrum hætti. Öfgarnar voru mestar hjá Samfylkingunni en nærri fimmti hver kjósandi flokksins vildi leggja altækt bann gegn notkun flugelda.

Það vill reyndar svo til að Samfylkingin hefur nýlega sýnt í verki hvernig flokkurinn sér fyrir sér að veita almannaþjónustu. Á árinu 2021 tók Reykjavíkurborg við rekstri Vinjar, dagseturs fyrir fólk með geðraskanir, sem hafði verið rekið af Rauða krossinum í nærri 30 ár. Rúmlega ári síðar, þegar afleiðingarnar af fjármálaóreiðu meirihlutans komu í ljós, var ákveðið að leggja starfsemi Vinjar niður.

Og síðast en ekki síst er gamlárskvöld villta vestrið í samfélagi sem hefur nýlega sýnt að það er tilbúið að fórna öllu frelsi fyrir öryggistilfinningu.

Hvers vegna er minnst á lokun Vinjar í grein um flugelda? Jú, vegna þess að það skiptir máli að standa vörð um lausnir sem virka. Almannaheillasamtök höfðu veitt þjónustuna um áratugaskeið áður en borgin flæktist fyrir og eins er óljóst hvernig almannavarnir verða fjármagnaðar ef grafið er undan flugeldahefðinni. Öllum er ljóst hver niðurstaðan verður ef björgunarsveitir verða settar á fjárlög þegar flugeldasalan þornar upp. Niðurstaðan verður viðvarandi skortur á fjármagni og óánægja með þjónustu sem skýrir kannski hvers vegna björgunarsveitirnar sjálfar eru mótfallnar þeirri hugmynd.

En setjum öll praktísk rök til hliðar enda er flugeldahefðin einfaldlega frábær í sjálfri sér. Hún er mengun í heimi sem vill endilega upplýsa þig um kolefnisporið sem þú skilur eftir þig með því að heimsækja vefsíðu. Hún er óskynsamleg neysla áður en hringrásarhagkerfið er aftur sett í forgrunn. Og síðast en ekki síst er gamlárskvöld villta vestrið í samfélagi sem hefur nýlega sýnt að það er tilbúið að fórna öllu frelsi fyrir öryggistilfinningu.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja.




Umræðan

Sjá meira


×