Innlent

Mikil fjölgun myglugreininga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stundum sést myglan ekki en ráðlegt er að ráðast í viðgerðir ef raki og einkenni gera vart við sig.
Stundum sést myglan ekki en ráðlegt er að ráðast í viðgerðir ef raki og einkenni gera vart við sig.

Rannsóknarstofa Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri greindi 1.532 sýni í fyrra þar sem grunur lék á að myglu væri að ræða. Þetta er 22 prósenta fjölgun frá fyrra ári. 

Fleiri rannsóknarstofur á Íslandi greina myglusýni og þá eru sýni send til Danmörku þegar álagið er mikið.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

„Það er kúfur í þessu núna. Við erum að fá í fangið hús sem komin eru á tíma með viðhald eða endurbætur eða laga þarf vegna rakavandamála,“ hefur blaðið eftir Sylgju Dögg Sigurjónsdóttur, líffræðingi hjá verkfræðistofunni Eflu.

Hún segist telja að mygla hafi greinst í hundruð húsa í fyrra.

Björn Marteinsson, arkitekt og verkfræðingur, segir kannanir á raka- og lekavandamálum í íbúðarhúsum hafa leitt í ljós að á bilinu 30 til 50 prósent svarenda kannist við slík vandamál og þau séu þekkt bæði í eldri og nýrri húsum.

Morgunblaðið hefur eftir Birni að það sé ekki skrýtið að opinberar byggingar séu að rata í fréttirnar vegna mygluvandamála en skorið hafi verið niður í viðhaldsmálum í kjölfar bankahrunsins. Þegar reglulegu viðhaldi sé ekki sinnt, skapist vandmál fyrr.

Í nýrri byggingum þurfi að huga betur að frágangsmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×