Innlent

„Þú getur gert þetta bara á Tenerife“

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar.
Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar. Vísir/Arnar

Endurvinnslan er hætt að greiða skilagjald beint inn á greiðslukort. Í staðinn var smíðað nýtt snjallforrit sem fólk getur notað heima hjá sér. Mikil aðsókn hefur verið í endurvinnslustöðvar í dag og framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir nýja fyrirkomulagið hafa mælst vel fyrir.

Jól og áramót eru tími mikillar neyslu hjá allflestum Íslendingum sem nýta hátíðarnar til að gera vel við sig í mat og drykk. En þegar fríið er búið og alvaran tekur við þá þarf að drífa sig í endurvinnsluna og skila flöskum og dósum sem hafa safnast upp og fá greitt skilagjald. Áður var einfaldlega hægt að strauja kortið í þartilgerðri vél og fá greitt samstundis en nú eru breyttir tímar.

Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri hjá Endurvinnslunni segir lausnina tilkomna vegna uppfærslu hjá kortafyrirtækjum og Reiknistofu bankanna.

„Nú eru þeir að uppfæra þessi kerfi og við bara getum ekki notað nýja kerfið það er bara ómöguleiki núna verðum að finna nýtt kerfi. Þá tókum við upp þess app lausn þannig að við erum bæði með síma, þú getur komið á staðinn og svo er gjaldkeri hérna í Knarrarvoginum.“

Þetta er  mikill álagstími fyrir Endurvinnsluna.

„Já það er alltaf aukning eftir jólin, eftir páska og á sumrin þegar allir eru að grilla. Það eru stóru tímarnir hjá okkur.“

En hvernig hefur gengið?

„Þetta hefur gengið í raun og veru ótrúlega vel. Við erum reyndar að millifæra á klukkutíma fresti.“

Helgi segir aukin þægindi felast í þessari nýju lausn.

„Þú getur bara gert þetta hvar sem er. Þú getur farið til Tenerife í næsta flugi og gert þetta bara á Tenerife. í hitanum og sólinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×