Erlent

Sau­tján látnir í Japan vegna fann­fergis

Árni Sæberg skrifar
Flestir hinna látinna hafa látist við snjóhreinsun.
Flestir hinna látinna hafa látist við snjóhreinsun. Kyodo News/AP

Sautján eru látnir og ríflega níutíu slasaðir í Japan vegna gríðarlegrar snjókomu í norðurhluta landsins. Fólk hefur látist eftir að hafa dottið af þökum við snjóhreinsun og eftir að hafa fengið yfir sig snjóhengjur af þökum.

Mikil snjókoma er til vandræða víðar en hér á landi þessa dagana. Öflugir kuldabakkar hafa orsakað mikla snjókomu í norðurhluta Japans síðustu daga.

Hundruð bifreiða sitja fastar á þjóðvegum landsins með tilheyrandi samgöngutruflunum og vandræðum fyrir flutningaþjónustu, að því er segir í frétt AP um málið. Þá voru um tuttugu þúsund heimili án rafmagns á sjálfan jólamorgun.

Þá segja almannavarnir Japana að aukinn snjóþungi yfir jólahelgina hafi gert það að verkum að 17 höfðu látið lífið nú í morgun og 93 slasast. Flest dauðsföllin tengjast ýmist hreinsun snjós af húsum eða snjó sem rennur ofan af húsum og yfir fólk. Til að mynda fannst kona á áttræðisaldri látin undir snjóhrúgu sem fallið hafði ofan af þaki í borginni Nagai í gær. Þar var jafnfallinn snjór áttatíu sentimetrar á laugardag.

Almannavarnir Japans hvetja íbúa landsins til þess að vanda vel til verka þegar snjór er hreinsaður ofan af húsum og að vinna alls ekki einir að hreinsuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×