Kínverjar glíma nú við stærstu bylgju kórónuveirusmita í landinu frá upphafi heimsfaraldursins 2020. Yfirvöld reyna nú að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar og hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin bent á lágt hlutfall bólusettra sé helsta vandamálið sem Kínverjar glími við nú.
Þrátt fyrir metfjölda smitaðra höfðu kínversk yfirvöld ekki greint frá dauðsföllum vegna Covid í fjóra daga. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur áhyggjur af því að Kínverjar eigi í erfiðleikum með að halda utan um smittölur og að gögnin, sem birt hafa verið, hafi ekki verið fullkomlega áreiðanleg. Nú hafa kínversk yfirvöld ákveðið að hætta að birta tölurnar daglega, eins og áður var gert.
Heilbrigðisyfirvöld í Kína slökuðu nýlega á sóttvarnartakmörkunum en að sögn Guardian hefur heilbrigðiskerfið í landinu átt í miklum erfiðleikum. Starfsfólk hefur verið fengið til að mæta veikt til vinnu og læknar á eftirlaunum hafa verið kallaðir til.
Talið er að yfir milljón smitist á degi hverjum og um fimm þúsund manns látist vegna Covid daglega í landinu, að því er fram kemur hjá Guardian.