„Ég er algjörlega sannfærð um að þetta stríð er ekki eingöngu á milli Rússlands og Úkraínu. Það er ekki bara það að Rússlands sé að ráðast inn í fullvalda, sjálfstætt ríki, sem gerði ekkert af sér gagnvart Rússlandi eða neinum öðrum. Það er verið að vega að þessum gildum sem við byggjum tilveru okkar á – grundvallarmannréttindum,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars í þættinum Fréttavaktin á Hringbraut.
Rússneska sendiráðið segir að sú fullyrðing standist ekki. Orð Þórdísar Kolbrúnar sýni einmitt tregðu íslenskra yfirvalda til að horfast í augu við „glæpi“ Úkraínumanna.
Sendiráðið vísar öllu á bug
„Síðustu átta ár, með þegjandi samþykki Bandaríkjamanna og evrópskra leiðtoga, hafa hersveitir Úkraínumanna drepið óbreytta borgara í Donbass. Þessar svokölluðu „hetjur“ hafa ógnað þjóð, sem ekkert hefur gert annað en að vilja tala rússnesku og neitað að deila nasískri hugmyndafræði,“ segir sendiráðið í færslu á Facebook.
Sendiráðið rússneska heldur áfram og segir innrásina hafa verið eðlilega afleiðingu „margra ára misþyrmingar“ Úkraínumanna. Það þurfi ráðherra að hafa í huga.
Þórdís Kolbrún gagnrýndi einnig herskyldu Rússa:
„Þetta er auðvitað algjör harmsaga, það er verið að fara með rússnesk mannslíf, ungra drengja, þar sem er fókusað sérstaklega á fátækustu svæði í Rússlandi, og það er verið að fara með þessi líf eins og þetta séu einhverjar einnota vörur nánast,“ sagði ráðherra meðal annars.
Þessu vísar sendiráðið einnig á bug og segir orðin ljóslega gefa skakka mynd af stöðu mála.